Þetta námskeið fjallar um helstu kenningar um þróun og atferli skipulagsheilda með áherslu á opinberar skipulagsheildir. Kenningar um skipulagsheildir (Organization theory) snúa að því hvernig fólk hagar sér innan skipulagsheilda og hvernig skipulagsheildir hegða sér, það er hvernig þær læra, keppa og þróast. Hvernig þær tengjast viðskiptavinum, fjárhagslegum bakhjörlum, almenningi og fjölmiðlum. Kenningar um atferli skipulagsheilda (organizational behavior) snúa hins vegar að félagsfræðilegri þekkingu um ákveðin stjórnunarvandamál t.d hvernig eigi að hvetja starfsmenn, vera góður leiðtogi, minnka starfsmannaveltu og höndla stress. Þrátt fyrir að þetta námskeið horfi meira á skipulagsheildir í víðu samhengi frekar en að leggja fram leiðbeiningar um hvernig eigi að leysa ákveðin vandamál, þá er áherslan samt á opinberar stofnanir og hvernig kenningar um skipulagsheildir og atferli innan skipulagsheilda geti verið gagnlegar fyrir stjórnendur.

Í námskeiðinu er því lögð áhersla á að skoða kenningar um skipulagsheildir og hvernig megi yfirfæra fræðileg hugtök yfir á raunverulegar aðstæður.