Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist þekkingu á þróun hugmynda og kenninga um fötlun og fái innsýn í fræðilega umfjöllun og rannsóknir á því sviði. Lögð er áhersla á þróun fötlunarfræða sem þverfræðilegrar og gagnrýnnar fræðigreinar með náin tengsl við réttindabaráttu fatlaðs fólks. Fjallað verður um margbreytileg félagsleg og menningarleg sjónarhorn og kenningar fræðigreinarinnar. Sérstök áhersla verður á þá hugmyndafræði sem legið hefur til grundvallar stefnumótunar og þjónustu við fatlað fólk undanfarna áratugi, þ.e.; 1) hugmyndafræði um “eðlilegt líf” normaliseringu, 2) hugmyndafræði um “sjálfstætt líf” independent living og 3) mannréttindasjónarmið. Jafnframt verður fjallað um tengsl hugmyndafræðinnar við daglegt líf fatlaðs fólks. 

Hæfniviðmið:

Að námskeiði loknu skal nemandi: 

  • Hafa staðgóða þekkingu og skilning á sögulegri þróun helstu kenninga og sjónarhorna í fötlunarfræði og geta gert grein fyrir henni bæði munnlega og skriflega,
  • þekkja helstu fræðimenn, kennismiði og þau viðfangsefni sem tekist er á við innan fötlunarfræða,
  • þekkja þá hugmyndafræði, kenningar og mannréttindasáttmála (s.s. kenningar um eðlilegt líf, hugmyndafræði um sjálfstætt líf og sáttmála SÞ um réttindi fatlaðs fólks) sem hafa haft mikil áhrif á löggjöf, stefnumótun, þjónustu og daglegt líf fatlaðs fólks og samfélagsþátttöku,
  • geta borið saman mismunandi kenningar og sjónarhorn í fötlunarfræði og greint hvað það er sem skilur þær,
  • geta tjáð sig í rituðu máli um kenningar og sjónarhorn fötlunarfræðinnar og tengt umfjöllunina við veruleika fatlaðs fólks,
  • sýna fötluðu fólki, aðstandendum þess, fag- og fræðafólki virðingu og tillitsemi í skrifum sínum og munnlegum flutningi verkefna